föstudagur, júlí 29, 2005

Lalli Jones

Ég hitti Lalla Jones á Austurstræti í gærkvöldi þar sem hann sat á tröppum. Ég leit eitt augnablik á hann og heilsaði hann mér fyrir vikið og spurði hvort ég væri að koma úr Ríkinu því ég var með poka, sem reyndar var merktur 10-11, en ég var að koma þaðan, í hendi mér. Ég sagðist vera að koma úr téðri matvöruverslun. Þá tók hann í hönd mína og óskaði mér góðrar helgar. Þetta var nokkuð skondið.
Ég tók svo eftir að Kaffi Austurstræti er að loka. Það verður mikill söknuður að þeim klúbbi, enda heitur harla.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

K32

Tók út K32 steinsteypustyrktarstál um daginn í vinnunni. Það var ofur. Ég fór aftur á sama vinnustaðinn í dag en tók reyndar bara út K25. Hins vegar fékk ég tvo litla búta úr K32 járnum sem minjagripi að gjöf. Ég er að spá hvort ég eigi að byggja hús úr þeim eða nota þá bara sem lóð.

mánudagur, júlí 25, 2005

Burger King

Fór í gær að snæða hamborgara er kallast Burger King. Keypti ég Big King. Ég hafði aldregi borðað slíkan hamborgara hér á landi fyrr og býst ekki við að gera mikið af því eftir kynnin. Flestöll hamborgaratilboðin voru án osts, beikons eða einhvers viðlíka. Hins vegar var manni boðið að bæta þessu aukaáleggi við og auk þess að stækka máltíðina. Ég pantaði að sjálfsögðu þann hamborgara sem var með osti á svo ég þyrfti ekki að greiða aukalega fyrir ostinn. Hamborgarinn reyndist frekar bragðvondur og úrvalið af grænmetinu sem fylgdi var lítið. Var hann og þurr. Franskarnar voru örugglega ekki unnar úr kartöflum. Þetta var sem sagt svipað og McDonald´s.
Við fórum þrír á hamborgarastaðinn og kostaði máltíðin um 1000 á mann enda stækkuðu þeir máltíðir sínar og bættu aukaáleggi við. Auk þess sem annar hinna pantaði lítinn hamborgara aukalega. Sá hinn sami er frá Svíþjóð og segir að þetta fáist fyrir u.þ.b. 500 krónur þar.

Ég þakka þeim sem á hlýddu.

föstudagur, júlí 15, 2005

Starfinn minn

Var ég búinn að segja ykkur frá starfanum mínum. - Sennilega ekki. - Ég vinn sem eftirlitsmaður byggingarfulltrúa Kópavogs við úttektir á byggingarframkvæmdum. Ég er sem sagt pantaður af byggingarstjóra áður en steyptur er húshluti eða grafið er yfir jarðlagnir og annað í þeim dúr. Þá mætir Kransinn galvaskur á svæðið með hvítan hjálm á hausnum, málband í annarri og hallamál í hinni. Meðalaldur byggingarstjóranna er u.þ.b. 50 ár og gætu þeir því hæglega verið feður mínir ef hægt er að eiga fleiri en einn. Síðan er það mitt að dæma hvort verkið sé nógu vel unnið eður ei. Ég ákveð hvort þeir fái að steypa, grafa, múra eða annað slíkt eða hvort þeir fái rauða spjaldið og ég þurfi að koma aftur til þeirra í úttekt. Byggingarstjórarnir, sem flestir eru húsasmíðameistarar, þurfa sem sagt að hlusta á tuðið í einhverjum krakka með hvítan hjálm sem hefur unnið nokkur sumur í byggingarvinnu og jú reyndar numið byggingarverkfræði í þrjú og hálft ár og hlýða svo því sem hann segir. Já svona er vinnan mín.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Írskir dagar

Fór til Akraneskaupstaðar á laugardaginn. Írskir dagar voru þar haldnir hátíðlegir. Öddi bauð til veislu í nýju íbúðinni sinni. Hann eldaði víst fram eftir öllu föstudagskvöldinu og langt fram á nótt og heppnaðist líka ljómandi hjá drengnum. Ýmsar tilraunir voru framkvæmdar með vín þetta kvöld. Eitthvert óbjóðs freyðivín sem verið var að kynna í Ríkinu, hvítvín on the rocks og hvítvín on the rocks með absolut vodka og hvítlauk. Sjálfur drakk ég Lager bjór.
Það var orðið ansi langt síðan ég datt í það á Akranesi og var það líka alveg helvíti gaman, eiginlega æðislegt. Ég faðmaði svona 709 manns á bryggjuballinu sem farið var á seinna um kvöldið. Einn strákur vildi endilega sýna vini sínum homma sem væri ekki kvenlegur. Ég þvertók fyrir þess konar sýningar og reyndi að koma honum í skilning um að ég væri ekkert sú-anímál. Ég og Bylgja rýndum í kynhneigð strákanna og fundum bara ansi marga homma, komumst eiginlega að því að Skipa-Skagi er samkynhneigður. Láll var ölur og kvartaði undan of mörgum faðmlögum við ókunnuga.
Sem sagt ansi gott í flesta staði.

laugardagur, júlí 09, 2005

Spánn

Ég kom úr tveggja vikna ferð frá Spáni á mánudaginn var. Heimsókn til pabba Heiðars. Hann býr í smábæ sem heitir La Caniza og er rétt fyrir norðan Portúgal, nálægt borgunum Vigo og Orense. Svæðið heitir Galizia og þar talar fólk sitt eigið tungumál galizku sem er frekar lík portúgölsku. Heiðar var á staðnum er ég mætti þangað. Hann var búinn að vera á þriggja vikna ferðalagi með systur sinni um Evrópu. (Króatíu, Ítalíu o.fl.) Ég lenti í Porto í Portúgal svo segja má að eitt land hafi bæst við á heimskortið mitt. (England, Ísland, Spánn, Frakkland, Kína, Holland og Portúgal) Frakkland og Portúgal eru á gráu svæði en ég hef samt komið þangað. Tvisvar sinnum var mér boðið marihuana; annað skiptið var á hommastað í Madrid en hitt skiptið var í La Caniza. Þar var ég jafn framt spurður af hverju ég reykti ekki. Ég átti frekar erfitt að svara því en sagði að lokum ,,Los Islandais no fuman porros". Við Heiðar fórum sem sagt einu sinni til Madrid og gistum 3 nætur. Með okkur komu Sigrún og Steingrímur ektamaður hennar. Miðborg Madridar úði og grúði af hommum og lesbíum en við komumst fljótt að því að Gay Pride yrði helgina eftir og misstum við af þeirri hátíð. Ef við hefðum vitað af Gay Pride hefðum valið helgina til að fara þangað, en svona er þetta. Við kynntumst nokkrum hommum á börunum og skemmtistöðunum og rétt náðum í byrjunina á hátíðinni sem átti að vera sérstaklega stór þetta árið vegna þess að giftingar og frumættleiðingar samkynhneigðra voru samþykktar á spænska þinginu fimmtudag fyrir hátíðina. Þannig er nú það, Spánverjinn kominn fram úr okkur. Svona er að hafa Sósíalista við völd.
Ég smakkaði ýmist sjávarfang þó svo ég hafi einnig étið McDonalds og álíka viðbjóð þegar tími var naumur. Ég smakkaði Pollo (kolkrabba) sem var ekkert spes. Smokkfiskurinn var góður. Bacalao (saltfiskur) var á bragðið eins og íslenskur saltfiskur og var mér sagt að prófa hann frekar í Portúgal eða einhvers staðar annars staðar á Spáni (man ekki hvar) þar sem fiskinum væri sýnd mikil virðing og hann tilbeðinn. Geitin var ekki eins góð og íslenska lambið en hreindýrið var gott. Tortilla (eggja, kartöflu- og laukmix) var gott og iðulega étið. Svo át maður stundum langloku með skinku og osti (Bacadillo con jamón y queso). Svona er nú það börnin góð.
Heiðari tókst að týnast í eitt skiptið. Við fórum til Orense síðasta laugardagskvöldið, þ.e. fyrir viku að kveðja Jesus og Rósu. Heiðar drakk sig haugölvi og þegar við ætluðum heim fannst hann hvergi og svaraði ekki síma. Úr varð að við strunsuðum heim á bíl um 5-leytið. Heiðar hringdi svo um 9:30 og bað mig að sækja sig sem ég og gjörði. Allt endaði því vel.
Tvisvar sinnum brann ég en er nú að verða brúnn á þeim stöðum. Ég keypti nú ekki mikið á Spáni (Regnbogafána, regnbogaarmband, póstkort, brjóstnælu, 2 hvítvín og 2 rauðvín) Hins vegar keypti ég DVD og CD í fríhöfnum Íslands og Stansted)
Ég er svo að fara að keppa í Herra Önundarfjörður 2005 í kvöld en Öddi ætlar nefnilega að halda upp á íbúðina sína á írskum dögum.

föstudagur, júlí 08, 2005

Hryðjuverk

Lesið þessa grein á Múrnum. Hún segir allt sem segja þarf.