fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Danmörk

Jæja, þá er maður kominn út. Skiptinemavikan er búin að vera stanslaus bjórdrykkja. Byrjað að sötra skömmu eftir hádegismat og því haldið áfram fram eftir kvöldi. Í gær fengum við að sjá Christania. Það var mjög áhugavert að koma í samfélag þeirra. Samkeppni, peningar, laun, skattur og annað sem drífur áfram samfélagið okkar þekkist varla þarna. Þau hafa einn í því að sjá um ruslið, annar sér um póstinn, næsti smíðar o.s.frv. Alltaf bara einn sem sér um ákveðinn hlut, engin samkeppni, engin laun, bara greiði fyrir greiða. Þau trúa á ást en ekki peninga. Hins vegar mátti sjá að eldra fólkið var ansi sjúskað af allri cannabis- og bjórneyslunni. En þetta var hamingjusamt fólk. Á leiðinni út var búið að reisa stórt hlið sem á var letrað: "You are now entering the EU". Leiðsögumaðurinn sagði að þetta væri stolt Kaupmannahafnarbúa og get ég vel skilið það.
Ég er búinn að búa hjá Jóhönnu, systur minni síðan ég kom en flyt í íbúð í miðbænum á sunnudaginn. Íbúðin er rétt hjá Hovedbanagaarden og er ég því ekki mjög lengi í skólann sem er í úthverfinu Lyngby. Maður er búinn að kynnast fólki frá ýmsum löndum þó aðallega Evrópu. Ég fæ svo líklega hjól á föstudaginn.
Við Jóhanna fórum í sólbað á mánudaginn á Íslandsbryggju og versluðum föt fyrir lítinn pening á Strikinu. Það er rosalega mikið af Íslendingum hérna, eiginlega of mikið. Sem betur fer hef ég lítið talað við Íslendingana sem eru skiptinemar hérna. Maður á að kynnast fólki annars staðar frá þegar maður er úti. Ætli ég verði svo ekki búinn að skrá mig í Íslendingafélagið áður en yfir lýkur, humm.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Allt timbur sem kemur að steypu skal rjóðlað fúavarnarefni

Fyrirsögn greinar þessarar sá ég á einni teikningu sem ég fór yfir í vinnunni um daginn. Sögnina að rjóðla hafði ég ekki heyrt um fyrr en gat ímyndað mér meiningu hennar af samhenginu. Engu að síður fletti ég henni upp í Íslenskri Orðabók. Ég fann hana að vísu ekki en sögnina að rjóða sá ég þar og er henni lýst svo:

rjóða rauð, ruðum, roðið, vh. þt. ryði (+rjóðaði, rjóðað) s 1 skáld. gera rautt með blóði. lita blóði 2 bera á, smyrja, maka >rjóða e-u á e-n roðinn LH ÞT 1 sem borið hefur verið á 2 sveipaður morgunroða, sólroðinn

Hér er merkingin líklega sú númer 2.
Þetta hefur sem sagt átt að hljóða svo:
Allt timbur sem kemur að steypu skal rjóðað fúavarnarefni.
Eða enn þá betra:
Allt timbur sem kemur að steypu skal roðið fúavarnarefni.

Svo fer ég væntanlega í úttekt á þakinu og get þá séð hvort smiðirnir hafi roðið timbrið fúavarnarefni.

Hægt væri að hugsa sér eftirfarandi setningu á stafsetningarprófi:
Þótt mennirnir ryðu timbrið fúavarnarefni af bestu gerð var enn þá ekki víst það þyldi kemísk sambönd sementsefjunnar.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Gay Pride

Á morgun kl. 3 verður gengin Gay Pride gangan frá Hlemmi að Lækjargötu. Gott er að koma aðeins fyrr til að sjá þegar gangan leggur af stað. Gay Pride hátíðin eða Hinsegin dagar er ætluð öllum óháð kynhneigð fólks. Hvort sem þú ert samkynhneigð(ur), tvíkynhneigð(ur), þríkynhneigð(ur), gagnkynhneigð(ur), kynskiptihneygð(ur), karlkynhneigð(ur), kvenkynhneigð(ur), hvorugkynhneigð(ur), síkynhneigð(ur), alkynhneigð(ur), ókynhneigð(ur) eða sjálfkynhneigð(ur) þá ertu velkomin(n).
Annað kvöld verður svo ofur diskó á Nasa með Páli Óskari. Í kvöld verður hins vegar boðið upp á kynskipta dansleiki. Á Pravda verður strákakvöld en á Iðnó verður stelpukvöld. Opnunarhátðiðin er einnig í kvöld kl. 20:30 í Loftkastalanum. Nánari upplýsingar hér.
Hver veit svo nema Kransanum bregði fyrir á einum pallinum, kannski íklæddum kjól eður leðurþveng? Það er aldrei að vita.
Veit annars einhver hvar Shady Owens er í dag?