laugardagur, febrúar 24, 2007

Enn af kvenhundum

Eins og ég hef áður sagt er íslensk pólítík leiðinleg. Jafn framt hefi ég komist að því að ég þarf að finna mér nýjan flokk að kjósa fyrir næstu kosningar ef Vinstri græn ætla að halda sig við þá fásinnu að binda jafnt hlutfall kynja á Alþingi í stjórnarskrá og að sama skapi verði jafnt hlutfall kynja í stjórnun fyrirtækja lögbundið. Eg vil ekki heyra minnst á svona bull. Má ekki að sama skapi tryggja að 5% Alþingismanna og 5% í stjórn hvers fyrirtækis í landinu séu samkynhneigð eins og minnst var á í Kastljósinu síðasta mánudag? Þessi kynjaumræða er komin út í bull. Jákvæð mismunun er ágætt stýritæki til að beina konum inn á framabrautina en að ætla að tryggja konum helmingshlut í hverju einasta fyrirtæki á landinu er rakin vitleysa. Eins og mér hefur líkað vel við þennan flokk hingað til, að mörgu leyti, er ég mjög ósáttur við þessa firru.

Ef ég ákveð að stofna fyrirtæki með einum vini mínum af fallegra kyninu ber mér væntanlega skylda til að finna konur til að stjórna fyrirtækinu með okkur. Kannsi myndi ríkið útvega mér þær. Fyrirtæki foreldra minna er að 1/6 hluta í eigu kvenmanns (móður minnar) og vænti ég að fleiri kvenmenn þyrftu að koma þar að í kjölfarið. Kannski væri nóg að senda Gísla Sverris og Sigga á Hellum í kynskiptiaðgerð?

Eg held ég skili auðu í vor nema ég stofni kannski Anarkistaflokk Islands.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Af pólitík og öðrum kvenhundum

Mér leiðist pólitík á Íslandi í dag. Hún fjallar aldrei um neitt merkilegt. Þetta er bara eitthvert framapot hjá athyglissjúku fólki. Engar hugsjónir og ekki neitt, nema þá helst hjá Vinstrihreyfingunni grænu framboði og jaðarmönnum í Sjálfstæðisflokknum.
Svo eru að koma einhver ný öfl sem mikið er fjallað um í fjölmiðlum þessa dagana. Þar má nefna aldraða og öryrkja, mögulegt framboð Margrétar, hugsanlegt framboð Jóns Baldvins, eitthvert framtíðarland Ómars Ragnarssonar og eflaust fleira. Allt eru þetta hugsanleg framboð en með voðalega fá ný stefnumál á hinu pólitíska litrófi íslenskra stjórnmála.

Ég legg hér með til hugmyndir um nokkrar nýjar stjórnmálahreyfingar. Ég vil að Frjálshyggjufélagið bjóði sig fram svo frjálshyggjuarmur Sjálfstæðisflokks geti fundið sig. Einnig vil ég að Forsjárhyggjufélagið verði stofnað sem mótsvar við Frjálshyggjufélaginu. Meginstefna þess gæti verið að Ríkið sjái algjörlega að hugsa fyrir almúginn svo hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af neinu og geti lifað hamingjusömu lífi vegna þess að hann þarf ekki að hafa fyrir neinu.
Önnur samtök vil ég að verði stofnuð sem gætu heitað Framtíðarlandið og væri þeirra helsta stefnumál að drekkja miðhálendinu með öllum tiltækum ráðum. Reistur yrði stór og langur stíflugarður umhverfis miðhálendið svo hægt væri að mynda stórt uppistöðulón fyrir stærstu virkjun í heimi. Síðan yrði álver, Sólver og Pólver(ji) í hverjum firði og allir yrðu ríkir.
Einnig vil ég að flokkur Anarkista bjóði sig fram en hann gæti haft það helsta markmið að kæmust þeir til valda myndu þeir leggja niður Alþingi, stjórnarráðið, lögreglu og allt það er talist getur vera Ríkisvald. Engar reglur eða lög fengju að gilda og hver og einn fengi að ráða því sem hann gerði óáreittur.
Þá væri nú fjör í pólitíkinni blessaðri.
Meira dettur mér ekki í hug í bili og kveð að sinni.