miðvikudagur, maí 30, 2007

Kynning

Á morgun stendur svo til að kynna ósköpin sem ég hef verið að vinna að síðan um jól, mastersverkefnið mitt. Er í óðaönn að útbúa power-point-show fyrir morgundaginn. Ég stafn annars moggablogg um daginn. Ég stafn bloggið einungis til að geta agnúast í Jóni Vali besta vini mínum þar sem mér ofbauð skrif hans um hómósexúalista. Býst þó ekki við að ég flytji skrif mín á moggabloggið þar sem ég kann ágætlega við mig hér, en maður veit þó aldrei.

sunnudagur, maí 27, 2007

Lærdómur

Það er frekar skrýtin tilfinning að vera einn í VRII að læra. Húsið er mannlaust ef ég er undanskilinn. Mér líður næstum eins og ég sé einn í heiminum. Sólin hefur skinið í dag en ég hef reynt að forðast að hugsa um það, einbeittur við lyklaborðið. Sumarið er ég farinn að sjá í hyllingum - sumarið með antílópunum, gnýunum og bleiku flamingófuglunum í Kenýa.

Uppfæring: Einn hefur bæst í hópinn og erum við nú a.m.k. tveir hér í húsinu. Mér líður mun betur.

mánudagur, maí 21, 2007

Vetur

Nú virðist vetur vera að ganga í garð í Reykjavík. Í morgun snjóaði nefnilega á mig á minni göngu í skólann. Varð mér kalt af, enda húfu- og vettlingalaus þar sem sumar á víst að heita komið. Verið hefur mun kaldara undanfarna daga og ekki síst morgna en fyrir u.þ.b. mánuði og jafnvel þó lengra aftur í tímann sé leitað. Tel ég að hér séu hin alræmdu gróðurhúsaáhrif að verki. En þau hafa hrekkt margan manninn á síðustu árum.
Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar virðast ganga vel , en foringjarnir eru, svei mér þá held ég bara, orðnir ástfangnir. Af þeim var birt mynd í Fréttablaðinu í morgun að kyssast og kjassast. Geir rak rembingskoss beint á munninn á Ingibjörgu og virtist hún ánægð að sjá. Svona er klámvæðingin orðin mikil í samfélaginu.

laugardagur, maí 19, 2007

Sei sei já og mikil ósköp

Nú er ég allt að því einn eftir hér í skólanum. Allir hafa lokið prófum og eru farnir á fyllerí en ég þarf að klára eitthvert meistaraverkefni og það hið snarasta. Verkefnið snýr annars að stíflugerð í Neðri Þjórsá, umhverfissinnum væntanlega til mikils yndisauka. Þegar ég hefi náð að klára þessa ritgerð býst ég við ég verði ölur næstu vikur á eftir, linnulaust, og fari svo að vinna.