fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hversu algeng er samkynhneigð á Íslandi?

Þessa fyrirsögn las ég í Fréttablaðinu og vakti umsvifalaust áhuga minn, svo ég las. Greinin er eftir guðfræðing að nafni Jón Valur Jensson og tekst honum ekki að dylja fordómana þó hann reyni að skrifa faglega. Greinin er aðallega einhvers konar talna- og prósentusúpa og kemst hann að lokum að þeirri niðurstöðu að á Íslandi búi 3000 hommar og 1800 lesbíur eða um 1,6 prósent. Það gæti vel verið rétt þó að ég hafi iðulega rekist á 5-10 prósent þar sem ég hef lesið um algengi þessarar kynhneigðar minnar. Ástæða þess að hann er í þessum prósentuleik er sú að Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna 78 og Sverrir Páll Erlendsson, kennari hafa nýverið gefið upp þessar 5-10 prósenta tölur um algengi samkynhneigðar.
Hann talar um að algengt sé að við gerum mikið úr fjölda okkar til að þrýsta enn frekar á "síaukin" réttindi okkar. Hvað meinar maðurinn með síaukin réttindi? Hvað erum við að biðja um? Eitthvað meira en gagnkynhneigðir hafa? Nei, nákvæmlega það sama; skrá okkur í sambúð, gifta okkur, ættleiða börn, fara í tæknifrjóvgun, gefa blóð, fara í herinn, að um okkur sé fjallað í skólakerfinu. Jú, jú þetta eru síaukin réttindi en ósköp eðlileg og ekki sérréttindi.
Svo kemur maðurinn að því í hvaða stéttum þjóðfélagsins við finnumst.
Tilvitnun hefst:
"Margir þeirra eru hæfileikamenn í ýmsum stéttum, m.a. í hópi leikara, listamanna, rithöfunda og fjölmiðlamanna, ekki síst í stórborgum á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna. Lífsstíll þeirra hefur því fengið verulega jákvæða kynningu í kvikmyndum og fjölmiðlaefni sem þaðan berst."
Tilvitnun lýkur.
Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að við fyrirfinnumst alls staðar, í öllum stéttum, í öllum löndum. Kannski eru margir okkar í þessum upptöldu stéttum en mjög líklega svipað há prósenta og hjá gagnkynhneigðum. Fólk í áðurnefndum stéttum er áberandi í mannlífinu og þarf að vera svolítið opið til að sinna starfi sínu. Þetta er líklega ástæðan fyrir því að fólk heldur að við séum svona algeng í áðurnefndum stéttum.
Er kannski eitthvað að því að lífsstíll okkar (hver svo sem hann er) fái jákvæða umfjöllun? Ég get ekki séð það.
Ég veit reyndar ekki með þennan lífsstíl okkar. Ég vil ekki kalla samkynhneigð mína lífsstíl. Mér finnst það reyndar fáránlegt. Ég er hommi af því ég fæddist þannig ekki af því ég kaus mér það, og hana nú. Síðan get ég haft minn eigin lífsstíl óháð því hvern ég elska. Mér finnst líka asnalegt að tala um algengi samkynhneigðar, eins og þetta sé sjúkdómur eða eitthvað.
Ég held að kallinn ætti að lesa sér betur til eða fara og hitta samkynhneigða áður en hann fjallar svona óvarlega um okkur. Annars býst ég við svari frá Þorvaldi Kristinssyni.

Kveðja úr hommalandi þar sem tíðni samkynhneigðar er 100%

sunnudagur, apríl 24, 2005

Usher Skarp

Á miðvikudaginn fór ég ásamt eiginmanni mínum, Heiðari, í fyrirhugaða ránsferð heim að Hvanneyri. Var gist og köttur og bíll teknir traustataki daginn eftir. Kettlingnum virðist líða nokkuð vel í nýjum heimkynnum sínum. Hann hefur að vísu tvisvar sinnum hægt sér þar sem þess var ekki ætlast til af honum en virðist vera farinn að rata í kassann sinn. Að vísu hefur hann mest gaman af því að róta og klóra þar. Hann hefur sofið til fóta okkar og annars staðar í rúminu og á það til að ráðast á lappir okkar á næturnar þegar hann vaknar. Heiðar hefur ekki fengið góðan nætursvefn að undanförnu vegna þessa.

laugardagur, apríl 09, 2005

Atvinna

Jæja, þá er maður kominn með vinnu loksins. VSÓ Ráðgjöf er verkfræðistofan og er ég þar á framkvæmdaráðgjafarsviði. Hef þó verið að vinna fyrir annað svið síðan ég byrjaði, en það var síðasta miðvikudag. Á fimmtudagsmorguninn vakti ég fyrrverandi bekkjarfélaga minn og núverandi vinnufélaga minn, hana SHE, upp með látum og ruddist inn á heimili hennar þar sem hún svaf værum blundi ásamt ektamanni sínum. Við höfðum nefnilega ákveðið að verða samferða í vinnuna daginn áður en hún býr rétt hjá mér. Þetta fór þó allt vel að lokum.
Nú þegar Hróbjartur Fischer er orðinn Íslendingur eins og ég og fleiri finnst mér að eigi að veita honum heimili í nágrenni við mig, nánar til tekið við Fischer-sund. Frægt er nefnilega orðið þegar Robbi tefldi við páfann í Fischer-sundi árið 1982 og bar sigur úr býtum. Varð gatan nefnd eftir honum eftir einvígið en hún hét áður Mjóagata.

laugardagur, apríl 02, 2005

Partý o.fl.

Nú er verkfræðipartý nýafstaðið í mínum húsum. Ég held það hafi gengið ágætlega fyrir sig og ekki brotnaði nema eitt glas (og reyndar annað við tiltekt í dag). Var meira að segja borðstofunni breytt í fínasta dansgólf. Í dag bakaði ég hins vegar focacciurnar sem ég ætlaði mér að bjóða upp á í partýinu. Deigið hafði nefnilega ekki hefast nóg til að hægt hefði verið að baka það í gærkvöldi. Ég auglýsi hér með eftir næsta bekkjarpartý. Það er gaman að svona. Hver veit nema pis slái til?
Á morgun er ég að fara í fermingarveislu hjá Björgvini Ágústi sem er í liðveislu hjá mér. Það verður því væntanlega étið mikið af kökum (en þó ekki Kransakökum, eða hvað?) þar.
Venja er víst fyrir því að tilkynna afmæli á þessum bloggsíðum og því vil ég óska Reyni bróður mínum til hamingju með 16 ára afmælið um leið og ég kveð að sinni.