föstudagur, júní 15, 2007

Af heilsufarsástandi þjóðar

Ýmsir kvillar hrjá nútímamanninn. Lengi vel var þágufallssýkin svokallaða heilsu manna afar hættuleg og voru menn ósjaldan rúmliggjandi marga daga fyrir hennar sakir. Eftir að bólusetning fannst fyrir henni virðast bara nýir kvillar koma upp á yfirborðið. Veikbeyging á sögnum virðist þessa dagana t.a.m. ná að freista margs góðs mannsins. Má efalaust rekja tilurð tíðni þessarar áráttu til aukinnar upptöku erlendra orða í íslenskt mál. Tökum til að mynda sögnina að blogga sem dæmi. Einhverra hluta vegna virðist fólki það tamara að lýta sögnina með veikbeygingu á eftirfarandi máta
blogga - bloggaði - bloggað
í stað þess að leyfa henni að njóta fallegra íslenskra beygingarreglna til fulls svo
blogga - blagg - bluggum - bloggið
Ég vil bjóða öll ný sagnorð velkomin til landsins en með því skilyrði að þau lúti íslenskum beygingarreglum og beygist sterkt hvar sem því verður við komið og helst í hvívetna.

Annað dæmi úr netheimum er sögnin að gúggla og beygir þorri manna svo
gúggla - gúgglaði - gúgglað
þegar hún beinlínis hrópar á okkur að vera beygð
gúggla - gauggl - gugglum - gogglið
Þetta segir sig eiginlega sjálft ef málið er skoðað í rólegheitum. Nóg er til af ljótum veikbeygðum sögnum í íslenskunni og er hreinlega ekki í það ómerkilega mengi sagnorða bætandi.

Ást mína á sterkbeygðum sögnum fékk ég í grunnskóla hjá síra Geir Waage sem kenndi mér í forföllum Þorvaldar Pálmasonar og e.t.v. fleiri og kann ég honum miklar þakkir fyrir að hafa fyrir mér upp lokið dyrum að þeirri paradís sem heimur sterkbeygðu sagnarinnar óneitanlega er.

Ég hvet hér með þá lesendur sem haldnir eru veikbeygingarblæti eður -losta að berjast og falla ekki í freistni. Ég get lofað þeim því að þegar þeir uppgötva fegurð sterkbeygingarinnar munu þeir líta á veikbeygingarlostann er þeir voru haldnir sem hluta af ákveðnu tímabili í lífi sínu sem sé einfaldlega lokið. Líta má á það sem ákveðið þroskamerki að hverfa frá þeirri fásinnu að veikbeygja allt sem á vegi manna verður.

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég er þér fullkomlega sammála. Þetta er þörf ábending, kominn tími til að taka á þessu vandamáli.

8:26 f.h., júní 17, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvítur birtist athugasemd mín sem ég reit hér egill? Prófa aftur.

12:31 e.h., júní 17, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Sammála ykkur drengir. Það segir sjálft að sterkbeygðar sagnir eru líka sterkbyggðar og munu þess vegna blíva. Það er ekki tilviljun að ég notaði sögnina að blíva. Nú legg ég til (enda mjög tillögð) að Davíð Rósenkrans kenni okkur að beygja þessa nýju, íslensku sögn á réttan hátt.

12:33 e.h., júní 17, 2007  
Blogger Davíð Rósenkrans Hauksson said...

Það yrði þá
blíva - bleiv - blivum - blivið

1:37 f.h., júní 18, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég skil þetta ekki.

8:41 e.h., júní 19, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Já þetta þykir mér afar þörf og ekki síður nauðsynleg færsla. Standa verður vörð um sterkbeygingar og aðrar beygingar. Guð býr í sterkbeygingunni amma!
Sammála Davíð með beyginguna á sögninni að blíva.
Annars er orðskrípi sem er mér ofarlega í huga og það er orðið ryksuga eða öllu heldur sögnin að ryksuga, hvað merkir sögnin "að suga" það er efni í næsta pistil fyrir þig Davíð minn

1:31 f.h., júní 27, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Stundum segi ég ég nú að ég hafi ryksogið gólfin eða að ég ætli að ryksjúga þau. Það er sennilega réttara miðað við það sem Ragnar segir/skrifar. Maðurinn ryksaug stofugólfið sitt.

1:55 e.h., júní 27, 2007  
Blogger Davíð Rósenkrans Hauksson said...

Þótt maðurinn ryksygi teppi sitt í hvívetna var ekki að sjá á því að það hefði verið ryksogið í langan tíma.

12:35 e.h., nóvember 05, 2007  

Skrifa ummæli

<< Home