fimmtudagur, júní 28, 2007

Kenýa

Kynningin gekk bara nokkuð vel - betur en ég þorði að vona í það minnsta.

Í fyrramálið fer ég svo til álfunnar bláu og er ég að verða búinn að pakka niður. Búinn að kaupa mér töflur og fara í fullt af sprautum. Keypti mér Lonely Planet guide og mun lesa hann á leiðinni. Flug til London er 7:50 í fyrramálið og er lent kl. 10:45 að staðartíma í London Stansted. Þaðan liggur leiðin á Heathrow flugvöll. Flug þaðan er svo kl. 19:15 á morgun og er lent kl. 6:05 að staðartíma í Nairobi, höfuðborg Kenýa. Þetta er sem sagt tæplega sólarhrings ferðalag og er flugið frá London til Nairobi 9 tíma langt.

Ég mun reyna að blogga eitthvað meðan ég er úti.

þriðjudagur, júní 26, 2007

Fyrirlestur

Jæja, ég kynni verkefnið mitt fimmtudaginn 28. júní, kl. 15:00 í VR II, Hjarðarhaga 6, stofu 157. Þeir sem vildu minnast mín eru velkomnir. Verkefnið fjallar um hönnun og greiningu á stíflumannvirki með þéttidúk. Daginn eftir flýg ég svo til London og þaðan til Kenýa og kem ekki aftur fyrr en 22. júlí.

fimmtudagur, júní 21, 2007

Skil

Jæja - skilaði loks af mér ritgerðinni í morgun. Þessu seinkaði smá hjá mér en það kemur ekki að sök. Næst á dagskrá er svo að halda kynningu en það verður gert í næstu viku og auglýst hér síðar.

föstudagur, júní 15, 2007

Af heilsufarsástandi þjóðar

Ýmsir kvillar hrjá nútímamanninn. Lengi vel var þágufallssýkin svokallaða heilsu manna afar hættuleg og voru menn ósjaldan rúmliggjandi marga daga fyrir hennar sakir. Eftir að bólusetning fannst fyrir henni virðast bara nýir kvillar koma upp á yfirborðið. Veikbeyging á sögnum virðist þessa dagana t.a.m. ná að freista margs góðs mannsins. Má efalaust rekja tilurð tíðni þessarar áráttu til aukinnar upptöku erlendra orða í íslenskt mál. Tökum til að mynda sögnina að blogga sem dæmi. Einhverra hluta vegna virðist fólki það tamara að lýta sögnina með veikbeygingu á eftirfarandi máta
blogga - bloggaði - bloggað
í stað þess að leyfa henni að njóta fallegra íslenskra beygingarreglna til fulls svo
blogga - blagg - bluggum - bloggið
Ég vil bjóða öll ný sagnorð velkomin til landsins en með því skilyrði að þau lúti íslenskum beygingarreglum og beygist sterkt hvar sem því verður við komið og helst í hvívetna.

Annað dæmi úr netheimum er sögnin að gúggla og beygir þorri manna svo
gúggla - gúgglaði - gúgglað
þegar hún beinlínis hrópar á okkur að vera beygð
gúggla - gauggl - gugglum - gogglið
Þetta segir sig eiginlega sjálft ef málið er skoðað í rólegheitum. Nóg er til af ljótum veikbeygðum sögnum í íslenskunni og er hreinlega ekki í það ómerkilega mengi sagnorða bætandi.

Ást mína á sterkbeygðum sögnum fékk ég í grunnskóla hjá síra Geir Waage sem kenndi mér í forföllum Þorvaldar Pálmasonar og e.t.v. fleiri og kann ég honum miklar þakkir fyrir að hafa fyrir mér upp lokið dyrum að þeirri paradís sem heimur sterkbeygðu sagnarinnar óneitanlega er.

Ég hvet hér með þá lesendur sem haldnir eru veikbeygingarblæti eður -losta að berjast og falla ekki í freistni. Ég get lofað þeim því að þegar þeir uppgötva fegurð sterkbeygingarinnar munu þeir líta á veikbeygingarlostann er þeir voru haldnir sem hluta af ákveðnu tímabili í lífi sínu sem sé einfaldlega lokið. Líta má á það sem ákveðið þroskamerki að hverfa frá þeirri fásinnu að veikbeygja allt sem á vegi manna verður.

laugardagur, júní 09, 2007

Kastljós

Djöfull var hann ósmekklegur kastljósþátturinn á fimmtudag. Dauð ljón til sýnis og morðingja þeirra hampað. Held það væri nær að stinga honum í fangelsi. Maðurinn á ekkert með að ryðjast inn í heimkynni kattanna, blóðþyrstur, til þess eins að myrða þá. Þetta var ógeðslegur þáttur.

sunnudagur, júní 03, 2007

Gilitrutt

Það er alltaf gamanrifja upp gömul ævintýr.

laugardagur, júní 02, 2007

Dro-ho-ttinn, - miskunna þú o-oss

Ég verð guðlausari með hverjum deginum sem líður. Ég hef reyndar ekki trúað á guð frá því ég var barn . Ég og Siggi vinur minn töldum hugmyndina um guð fráleita frá því að ég var kannski 10 ára eða jafnvel yngri - man það ekki. Man vel eftir því þegar hann og Halldór Örn stofnuðu eigin trúarbrögð þar sem guðinn Íha réði öllu. Ég fór í sunnudagaskóla fram að svona 6 ára aldri og kristinfræðslu fékk ég í grunnskóla. Ég fermdist meira að segja þó svo að ég hafi fullkomlega viðurkennt það fyrir sjálfum mér að ég tryði eigi á tilvist Jehóva. Mig langaði bara í pakka og skammaðist mín ekkert fyrir það.

Ég lét svo verða af því fyrir tæpu ári að skrá mig úr þjóðkirkjunni. Ég hefði eflaust ekki gert það ef ekki væri vegna kynhneigðar minnar (svo hún komi nú enn einu sinni fram:)). Biskup gerði okkur fyllilega ljóst að hann vill ekki ást samkynhneigðra í kirkju sinni þegar hann fór að tala um ruslahaugana í þessu samhengi. Ég lái þessum mönnum ekki. Þetta er þeirra siðferði og ég sætti mig alveg við þeirra skoðanir einfaldlega vegna þess að ég hafna kristni. Þegar niðurstaða prestaþings lá fyrir hvað varðar hjónavígslur samkynhneigðra varð ég ekkert reiður, miður mín eða neitt í þeim dúr. Ég fann ekki fyrir neinu og fannst þetta mér óviðkomandi. Ekki er ég sár Geir Waage frænda mínum þó að hann telji kristið hjónaband eiga við um karl og konu. Svo má vel vera.

Ég var svo lánsamur að hafna kristni í æsku. Ef ég væri trúaður ætti ég erfiðara með að sætta mig við eigið hlutskipti í lífinu.

Vissulega fyrirfinnast kristnir samkynhneigðir einstaklingar sem eflaust þrá ekkert heitar en að giftast í kirkju. Ég tel samt að betra sé fyrir þá að yfirgefa þjóðkirkjuna og finna sér samastað þar sem þeir eru velkomnir (t.d. hjá frjálslyndari kirkjum) til að staðfesta ást sína frammi fyrir guði ef það er þeim mikilvægt. Ég hef aldrei talið mig þurfa að staðfesta ást mína frammi fyrir neinum nema þeim sem henni er ætlað.

Leti

Búinn að vera fulllatur síðustu tvo-þrjá daga. Þarf að drattast aftur í sama gírinn og ég var í og ljúka þessu verkefni í eitt skipti fyrir öll - þá fyrst kemur sumarið.

föstudagur, júní 01, 2007

Atli góður

Sá það í fréttablaðinu í morgun að Atli Gíslason femínisti og þingmaður vinstri grænna hefði ekki mætt í messu í dómkirkjunni við setningu nýs Alþingis. Þetta gerði hann til að sýna samkynhneigðum stuðning, en ríkiskirkjan vill ekki að samkynhneigðir fá að giftast hver öðrum hjá sér, nema þá hugsanlega að hommi fengi að kvænast lesbíu. Þessi helgiathöfn Alþingismanna er reyndar kjánaleg í landi sem í ríkir trúfrelsi.

Því ber að fagna af þessu tilefni að ný ríkisstjórn hefur í hyggju að leyfa trúfélögum að ráða því hvort þau gefi saman samkynhneigð pör eður ei. Ég tek það fram að ef þjóðkirkjan eða önnur trúfélög vilja ekki gefa saman samkynhneigð pör er það þeirra mál. Það er hins vegar spurning hvort ríkisrekin kirkja megi með góðu móti neita að gefa saman samkynhneigð pör ef í landslögum verða tekin upp sömu hjúskaparlög fyrir sam- og gagnkynhneigða. Komi sú staða upp er hér komin góð ástæða til einkavæðingar á ríkiskirkjunni. Geta þá útrásar- og athafnamenn Íslands boðið í kvikyndið þyki þeim það fýsilegt og/ellegar gróðavænlegt.

Annars líst mér ekkert á ástand mála í Venesúela, þegar kommúnistinn og forsetinn Hugo Chavez er farinn að loka niður hverri sjónvarpsstöðinni á fætur annarri vegna þess að honum líkar ekki það sem stöðvarnar færa lýðnum, svo ég fjalli nú um önnur mál. Þetta minnir á ógnarstjórnina í Kína.