fimmtudagur, apríl 28, 2005

Hversu algeng er samkynhneigð á Íslandi?

Þessa fyrirsögn las ég í Fréttablaðinu og vakti umsvifalaust áhuga minn, svo ég las. Greinin er eftir guðfræðing að nafni Jón Valur Jensson og tekst honum ekki að dylja fordómana þó hann reyni að skrifa faglega. Greinin er aðallega einhvers konar talna- og prósentusúpa og kemst hann að lokum að þeirri niðurstöðu að á Íslandi búi 3000 hommar og 1800 lesbíur eða um 1,6 prósent. Það gæti vel verið rétt þó að ég hafi iðulega rekist á 5-10 prósent þar sem ég hef lesið um algengi þessarar kynhneigðar minnar. Ástæða þess að hann er í þessum prósentuleik er sú að Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna 78 og Sverrir Páll Erlendsson, kennari hafa nýverið gefið upp þessar 5-10 prósenta tölur um algengi samkynhneigðar.
Hann talar um að algengt sé að við gerum mikið úr fjölda okkar til að þrýsta enn frekar á "síaukin" réttindi okkar. Hvað meinar maðurinn með síaukin réttindi? Hvað erum við að biðja um? Eitthvað meira en gagnkynhneigðir hafa? Nei, nákvæmlega það sama; skrá okkur í sambúð, gifta okkur, ættleiða börn, fara í tæknifrjóvgun, gefa blóð, fara í herinn, að um okkur sé fjallað í skólakerfinu. Jú, jú þetta eru síaukin réttindi en ósköp eðlileg og ekki sérréttindi.
Svo kemur maðurinn að því í hvaða stéttum þjóðfélagsins við finnumst.
Tilvitnun hefst:
"Margir þeirra eru hæfileikamenn í ýmsum stéttum, m.a. í hópi leikara, listamanna, rithöfunda og fjölmiðlamanna, ekki síst í stórborgum á austur- og vesturströnd Bandaríkjanna. Lífsstíll þeirra hefur því fengið verulega jákvæða kynningu í kvikmyndum og fjölmiðlaefni sem þaðan berst."
Tilvitnun lýkur.
Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að við fyrirfinnumst alls staðar, í öllum stéttum, í öllum löndum. Kannski eru margir okkar í þessum upptöldu stéttum en mjög líklega svipað há prósenta og hjá gagnkynhneigðum. Fólk í áðurnefndum stéttum er áberandi í mannlífinu og þarf að vera svolítið opið til að sinna starfi sínu. Þetta er líklega ástæðan fyrir því að fólk heldur að við séum svona algeng í áðurnefndum stéttum.
Er kannski eitthvað að því að lífsstíll okkar (hver svo sem hann er) fái jákvæða umfjöllun? Ég get ekki séð það.
Ég veit reyndar ekki með þennan lífsstíl okkar. Ég vil ekki kalla samkynhneigð mína lífsstíl. Mér finnst það reyndar fáránlegt. Ég er hommi af því ég fæddist þannig ekki af því ég kaus mér það, og hana nú. Síðan get ég haft minn eigin lífsstíl óháð því hvern ég elska. Mér finnst líka asnalegt að tala um algengi samkynhneigðar, eins og þetta sé sjúkdómur eða eitthvað.
Ég held að kallinn ætti að lesa sér betur til eða fara og hitta samkynhneigða áður en hann fjallar svona óvarlega um okkur. Annars býst ég við svari frá Þorvaldi Kristinssyni.

Kveðja úr hommalandi þar sem tíðni samkynhneigðar er 100%

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Vel orðað Kransi.
Já, það er asnalegt að tala um síaukin réttindi eru þetta ekki bara almenn mannréttindi? Hvers vegna má karl skrá sig í sambúð með konu en ekki með karli? Er hollara fyrir börn að búa með konu og karli en tveimur fullorðnum einstaklingum af sama kyni? Þau börn sem eru ættleidd eru oft á tíðum búsett á munaðarleysingjahælum og lifa við bágar aðstæður og ég efast ekki um að samkynhneigð hjón gætu gefið þeim betra líf sem og gagnkynhneigð hjón. Svona heimsk umræða og umfjöllun gerir mig oft brjálaða.......... nóg um það :-)
ps. til hamingju með kisuna sætu.

2:02 e.h., apríl 29, 2005  
Blogger Dagny Ben said...

Já, finnst líka alveg fáránlegt að konur megi ættleiða börn þó þær séu einstæðar en ekki samkynhneigð pör! Ef tveir einstaklingar af sama kyni uppfylla öll skilyrði eru þeir að sjálfsögðu jafn hæfir og hver annar.
Óþarfi að bíða eftir svari frá Þorvaldi Kransi, sýnist þú nú bara alveg eins geta svarað þessum guðfræðingi :0)

2:09 e.h., apríl 29, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Jón Valur Jensson er kaþólskur og hefur einnig látið að sér kveða í málefnum fóstureyðinga, en hann vill stöðva þær.

Hann hefur oft verið hjá okkur á Vantrú.net með athugasemdir um hitt og þetta. Þetta er svo mikill íhaldsmaður að hann notar ennþá zetuna, þar sem við á, samkvæmt gamla rithættinum.

Mér fannst þessi grein vera dálítið út úr kú. Hvað var innihald hennar eiginlega? Að samkynhneigðir eru færri en sumir halda, og hvað með það? Ég sé ekki að það breyti neinu.

Ég hef hitt Jón Val og hann er frekar sérstakur, enda hljóta íslenskir kaþólskir guðfræðingar að vera svoldið spes :þ

5:42 e.h., apríl 29, 2005  
Blogger Davíð Rósenkrans Hauksson said...

Já, maður er farinn að þekkja þessa kalla. Ef þeir eru á móti samkynhneigð eru þeir á móti fóstureyðingum o.s.frv. Það er líka alltaf hægt að lesa í gegnum það sem þeir skrifa. Orðalagið er alltaf á þann máta að samkynhneigðir eru greinilega ekki með þessum venjulegu í liði heldur svolítið fjarri þeim og almennt á skjön (e: queer).

12:30 f.h., apríl 30, 2005  
Blogger Davíð Rósenkrans Hauksson said...

blogga blagg bluggum bloggið. Ég blegg í dag þó ég blyggi í síðustu viku.
Einhleypir karlar mega ættleiða börn hvort sem þeir eru samkynhneigðir,gagnkynhneigðir, tvíkynhneigðir, ókynhneigðir o.s.frv. Þeir þurfa hins vegar að sýna með ótvíræðum hætti að þeir séu traustsins verðir og er því alls ekki svo að hver sem er fái að stjúpættleiða börn. Það sama gildir um einhleypar konur.

11:54 f.h., maí 04, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Ýmsu af þeim spurningum og fullyrðingum, sem fram koma í máli Davíðs Rósenkrans og skoðanasystkina hans hér ofar, hef ég svarað – og vísa hér með til þess – einmitt á vefsíðu, þar sem farið hefur fram umræða um tilvitnaða Fréttablaðsgrein mína, þ.e.a.s. á vefslóðinni http://www.visir.is/?PageID=339&NewsID=39624

Fyrir þá, sem áhuga hafa á afstöðu minni til fóstureyðinga og rökum fyrir henni, vísa ég til vefsetursins www.lifsvernd.com og vefsíðu minnar http://kirkju.net/index.php/jon – og tilvísana þar. Enn meira efni mun birtast þar á næstunni.

3:20 e.h., ágúst 09, 2005  

Skrifa ummæli

<< Home