föstudagur, júní 01, 2007

Atli góður

Sá það í fréttablaðinu í morgun að Atli Gíslason femínisti og þingmaður vinstri grænna hefði ekki mætt í messu í dómkirkjunni við setningu nýs Alþingis. Þetta gerði hann til að sýna samkynhneigðum stuðning, en ríkiskirkjan vill ekki að samkynhneigðir fá að giftast hver öðrum hjá sér, nema þá hugsanlega að hommi fengi að kvænast lesbíu. Þessi helgiathöfn Alþingismanna er reyndar kjánaleg í landi sem í ríkir trúfrelsi.

Því ber að fagna af þessu tilefni að ný ríkisstjórn hefur í hyggju að leyfa trúfélögum að ráða því hvort þau gefi saman samkynhneigð pör eður ei. Ég tek það fram að ef þjóðkirkjan eða önnur trúfélög vilja ekki gefa saman samkynhneigð pör er það þeirra mál. Það er hins vegar spurning hvort ríkisrekin kirkja megi með góðu móti neita að gefa saman samkynhneigð pör ef í landslögum verða tekin upp sömu hjúskaparlög fyrir sam- og gagnkynhneigða. Komi sú staða upp er hér komin góð ástæða til einkavæðingar á ríkiskirkjunni. Geta þá útrásar- og athafnamenn Íslands boðið í kvikyndið þyki þeim það fýsilegt og/ellegar gróðavænlegt.

Annars líst mér ekkert á ástand mála í Venesúela, þegar kommúnistinn og forsetinn Hugo Chavez er farinn að loka niður hverri sjónvarpsstöðinni á fætur annarri vegna þess að honum líkar ekki það sem stöðvarnar færa lýðnum, svo ég fjalli nú um önnur mál. Þetta minnir á ógnarstjórnina í Kína.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mér líst feikivel á þennann gjörning Atla, var einmitt að hugsa um þetta um daginn. Ég myndi hafa gjört slíkt hið sama í hans sporum.

Ég efast stórlega um að kirjan verði einhverntíman arðbær, nema hugsanlega ef farið verður út í sölu aflátsbréfa á nýjan leik.

11:07 e.h., júní 01, 2007  

Skrifa ummæli

<< Home