laugardagur, júní 02, 2007

Dro-ho-ttinn, - miskunna þú o-oss

Ég verð guðlausari með hverjum deginum sem líður. Ég hef reyndar ekki trúað á guð frá því ég var barn . Ég og Siggi vinur minn töldum hugmyndina um guð fráleita frá því að ég var kannski 10 ára eða jafnvel yngri - man það ekki. Man vel eftir því þegar hann og Halldór Örn stofnuðu eigin trúarbrögð þar sem guðinn Íha réði öllu. Ég fór í sunnudagaskóla fram að svona 6 ára aldri og kristinfræðslu fékk ég í grunnskóla. Ég fermdist meira að segja þó svo að ég hafi fullkomlega viðurkennt það fyrir sjálfum mér að ég tryði eigi á tilvist Jehóva. Mig langaði bara í pakka og skammaðist mín ekkert fyrir það.

Ég lét svo verða af því fyrir tæpu ári að skrá mig úr þjóðkirkjunni. Ég hefði eflaust ekki gert það ef ekki væri vegna kynhneigðar minnar (svo hún komi nú enn einu sinni fram:)). Biskup gerði okkur fyllilega ljóst að hann vill ekki ást samkynhneigðra í kirkju sinni þegar hann fór að tala um ruslahaugana í þessu samhengi. Ég lái þessum mönnum ekki. Þetta er þeirra siðferði og ég sætti mig alveg við þeirra skoðanir einfaldlega vegna þess að ég hafna kristni. Þegar niðurstaða prestaþings lá fyrir hvað varðar hjónavígslur samkynhneigðra varð ég ekkert reiður, miður mín eða neitt í þeim dúr. Ég fann ekki fyrir neinu og fannst þetta mér óviðkomandi. Ekki er ég sár Geir Waage frænda mínum þó að hann telji kristið hjónaband eiga við um karl og konu. Svo má vel vera.

Ég var svo lánsamur að hafna kristni í æsku. Ef ég væri trúaður ætti ég erfiðara með að sætta mig við eigið hlutskipti í lífinu.

Vissulega fyrirfinnast kristnir samkynhneigðir einstaklingar sem eflaust þrá ekkert heitar en að giftast í kirkju. Ég tel samt að betra sé fyrir þá að yfirgefa þjóðkirkjuna og finna sér samastað þar sem þeir eru velkomnir (t.d. hjá frjálslyndari kirkjum) til að staðfesta ást sína frammi fyrir guði ef það er þeim mikilvægt. Ég hef aldrei talið mig þurfa að staðfesta ást mína frammi fyrir neinum nema þeim sem henni er ætlað.

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég held að það verði ágæt málamiðlun að allar giftingar verði með þeim hætti að fyrst þurfa allir að ganga í borgaralegt hjónaband. Síðan geta þeir sem það vilja farið í kirkju og látið kjólklæddar mörgæsir lesa fornar galdraþulur yfir sér til blessunar hjónabandsins.

Samkynhneigðir ættu þá að geta gift sig eins og aðrir á borgaralegum grundvelli. Þannig er kerfið í sumum Evrópulöndum.

4:37 e.h., júní 04, 2007  
Blogger Davíð Rósenkrans Hauksson said...

Jamm, ég held að það sé einmitt rétta leiðin í málinu. Spánn, Belgía, Holland og að ég held Kanada (og gott ef ekki Suður-Afríka líka) hafa þetta svona.

Jafnvel væri hægt að leyfa þeim sem það vilja að gifta sig bara hjá sínu trúfélagi en ekki hjá sýslumanni, þ.e.a.s. ef trúin er það sterk.

Veit samt ekki hvort ég muni nokkurn tíma líta á mig sem annan helming hjóna; nafnið er einfaldlega svo gagnkynhneigt, enda hvorugkyns. Spurning um að segja hjónar og hjónur, hehe. Nafnið skiptir svo sem ekki máli heldur lagaleg réttindi.

8:26 e.h., júní 04, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Hehe. Ég var búin að gleyma þessum Íha en rámar eitthvað í hann svona þegar þú minnist á hann.
Mikið er afstaða þín góð, þú ert betri maður en þessir sem þykjast vera yfir aðra hafnir. Afstaða þín ber þess merki að þú ert þroskaður einstaklingur með sterka sjálfsvitund. Það eru hinir greinilega ekki og mega bara vera þannig í sinni kirkju. Ætla ekki nánar út í þessa sálma því eflaust er ég reiðari en þú þó ég reyni að hunsa svona hálfvita..........

12:08 f.h., júní 07, 2007  

Skrifa ummæli

<< Home